Dagsferð úr Mývatnssveit

Ferðin í Öskju er 11-12 tíma löng dagsferð þar sem ekið er um stærsta ósnortna landsvæði Íslands. Umhverfið er ferðamönnum mjög framandi og nýstárlegt, svartir jökulsandar, hvítar vikurauðnir og gróðurvinjar inn á milli.

Ekið er um Mývatnsöræfi til Herðubreiðarlinda og á leiðinni er gert stutt stopp við Gáska, lítinn fallegan foss í Grafarlandaá. Áð er í Herðubreiðarlindum og gengið að rústum kofa Fjalla-Eyvindar. Því næst er ekið sem leið liggur úr Lindum í Öskju. Á leiðinni er stansað við fossinn Gljúfrasmið, en þar grefur Jökulsá á Fjöllum sér tilkomumikil gljúfur í hraunbreiðuna. Einnig er stoppað á vikursöndunum sunnan Herðubreiðatagla þar sem geimfarar NASA æfðu sig fyrir tunglferðina 1969.

Komið er að Vikraborgum í Öskju um kl. 12.30 og þaðan er um hálftíma löng en auðveld ganga inn að Öskjuvatni og Víti . Hægt er að fara í bað í Víti og er það mjög vinsælt hjá ferðamönnum, þess ber að geta að bratt er ofan í Víti og ekki hægt að fara niður ef bleyta er. Í Öskju er dvalið í u.þ.b. 2 til 2 ½ klst. og ferðamönnum gefinn tími til að virða fyrir sér þessa einstöku náttúrusmíð. Á heimleiðinni er stansað við Drekagil og þaðan ekið um Herðubreiðarlindir sömu leið til Mývatns.

Jarðfræði

Glæsileg náttúrusmíð

Vilji einhver kanna einn dæmigerðasta og tilkomumesta fulltrúa íslenskra megineldstöðva með öskju ber þeim sama að heimsækja Dyngjufjöll (1.510 m) og Öskju. Fjöllin mynda bunguvaxið hálendi. Jarðmyndunin í heild er megineldstöð, hlaðin upp í endurteknum eldgosum í að minnsta kosti 200.000 ár. Hún er virknismiðja í 150 km löngu og 5-20 km breiðu eldstöðvakerfi sem nefnt er Öskjukerfið. Það er dæmigert eldvirkt svæði í gliðnunarbelti plötuskila þar sem tvær stórar jarðskorpuplötur færast í sundur um 2,0-2,5 cm á ári að meðaltali (á við Ísland). Miðhluti Dyngjufjalla einkennist af þreföldu sigsvæði eða þremur öskjum, með öðrum orðum. Þær sjást ekki þegar nálgast er fjöllin. Ein er áberandi stærst (45 ferkm), tiltölulega ung (10.000-20.000 ára) og er enn að myndast. Næststærsta askjan er mun eldri og óljósari í landslaginu. Í minnstu og yngstu öskjunni er dýpsta stöðuvatn landsins, Öskjuvatn (220 metrar). Vatnsstæðið tók að myndast þegar landsvæði innan meginöskjunnar seig eftir að afar öflugu gjóskugosi (með ösku- og vikurframleiðslu) lauk 1875. Öskjumyndunin og gjóskugosið eru hluti landreks- og eldgosahrinu sem nefnist Sveinagjáreldar og gekk yfir 1874-1875. Þá runnu töluverð hraun úr gossprungum alllangt norðan við Öskju. Smám saman flæddi grunnvatn í vatnsstæðið og Öskjuvatn varð til á nokkrum árum. Gígurinn Víti myndaðist strax á eftir megingjóskugosinu.

Öskjur af þeirri gerð sem sjást í Dyngjufjöllum myndast yfir kvikugeymum í jarðskorpunni. Þeir nefnast kvikuhólf. Hluti af þaki slíks hólf getur sigið, stundum hægt og bítandi í tengslum við þrýstingsbreytingar í kvikuhólfinu, en stundum rösklega meðan á eldsumbrotum stendur, eða eftir þau, af því að kvika þá hefur tæmst hratt úr hólfinu (líkt og gerðist 1875)

Augljós ummerki er víða að finna um líflega eldvirkni og miklar jarðskorpuhreyfingar (t.d. gjár og misgengi) í Öskjukerfinu en líklega var þar nokkuð tíðindalítið lengi framan af Íslandssögunni. Vitað er um feiknaöfluga hrinu gjóskugosa í Dyngjufjöllum fyrir 10.000-11.000 árum og mörg hraungos næstu árþúsundin þar á eftir. Nokkrar hraundyngjur hlóðust upp og er sú stærsta þeirra, Kollóttadyngja (1,180 m) mjög efnismikil. Með hraunum talið nemur efnismagn eldstöðvarinnar 15-20 milljörðum rúmmetra. Það dugar í 1.500 til 2.000 kílómetra langan, 100 metra breiðan og 100 metra háan hraunvegg! Smám saman hefur dregið úr gosvirkni í Öskjukerfinu eftir því sem lengra líður frá lokum síðasta jökulskeiðs ísaldar, þ.e. fyrir um það bil 10.000 árum. Er það tengt þeirri staðreynd að eldvirkni tekur kipp þegar fargi er skyndilega létt af jarðskorpunni, þ.e. þegar ísaldarjökull hverfur nánast af landinu á innan við árþúsundi, en svo hægist smám saman um á ný.

Á 20. öld gekk goslota og síðan líklega líka eldgosa- og rekhrina yfir í Öskju og nágrenni. Fyrst urðu smágos með hraunrennsli innan Öskju í mars 1921, nóvember 1922, desember 1922 og í febrúar 1923. Árin 1924, 1927 og 1929 birtust fregnir í blöðum um að sést hefði til eldgosa sunnan Dyngjufjalla en enginn fór til fjalla svo kanna mætti ummerki þeirra. Sennilega rann þá töluvert hraun í eldgosa- og rekhrinu sem svipaði til hraungosa Sveingjárelda á 19. öld. Árið 1926 gaus gjóska upp úr Öskjuvatni og er lítil eyja þar enn til sýnis; vasaútgáfa af gjóskueyjunum sem risu í Surtseyjargosinu sunnan við land nærri 40 árum síðar.

Eftir jarðhræringar í Dyngjufjöllum í október 1961 opnuðust kröftugir leirhverir innarlega í svonefndu Öskjuopi. Fyrir hádegi 26. október komu aftur fram skjálftar í Dyngjufjöllum og sást gosmökkur stíga upp af Norðausturlandi um klukkan 14.30. Gos var þá þegar hafið úr 800-1.000 metra langri sprungu sem lá í vestnorðvestur í jaðri Öskju og fylgdi sigsprungum öskjunnar. Hæsti kvikustrókurinn af fjórum náði 400-500 metra hæð. Hraunrennsli var áætlað 600-1.000 rúmmetrar á sekúndu eða tvö- til þrefalt meðalrennsli Ölfusár. Fljótlega dró úr hraunrennslinu. Aðaleldvörpin voru tveir myndarlegir gígar, Austari- og Vestari-Borg, um 20-30 metra háir og teljast þeir dæmigerðir gjall- og klepragígar. Snemma í nóvember breyttust goshættir. Gígarnir slettu hraunkleprum í slitróttum gusum en frá þeim rann hraðskreitt helluhraun í opnum rásum og lokuðum veitum. Þann 15. nóvember hófst gos í nýrri gosrás sunnan við hina gígana. Stakaborg hlóðst þar upp og lifði lengst í henni. Talið er að gosinu hafi lokið í fyrstu viku desember. Nýja basalthraunið í Dyngjufjöllum varð 11 ferkílómetrar að flatarmáli. Rúmmálið er um 0,1 rúmkílómetri (100 milljónir rúmmetra) en auk þess féllu um 4 milljónir rúmmetra af gjósku næst gosstöðvunum. Eldstöðin hlaut nafnið Vikraborgir og hraunbreiðan, sem er blanda apal – og helluhrauns, heitir Vikrahraun. Gosið var fyrsta flæðigos (gos með yfirgnæfandi hraunframleiðslu) sem nútímavísindamenn rannsökuðu hér á landi.

Ari Trausti Guðmundsson

jarðeðlisfræðingur